Mosagata 1-27 Garðabæ, fjölbýli samtals 93 íbúðir

Skilalýsing þessi fjallar einungis um meginatriði, og er ekki tæmandi varðandi einstök frágangsatriði.

Eftir er að hanna og fá skipulagsbreytingar í Mosagötu 9-17 og 19-27, en í öllum meginatriðum verða þau hús sambærileg við Mosagötu 1-3 og 5-7 að gerð og frágangi.

Í þessari skilalýsingu er gert ráð fyrir að skipulagsbreyting gangi eftir.

Almenn atriði

Mosagata 1-3 er fjölbýlishús með 22 íbúðum og 11 bílskúrum á lóð.

Mosagata 5-7 er fjölbýlishús með 22 íbúðum og 11 bílskúrum á lóð.

Mosagata 9 – 27 er í skipulagsbreytingu þar sem gert er ráð fyrir að þetta verði ein lóð með tveimur fjölbýlishúsum og einni sameiginlegri bílageymslu. Númerum verður breytt og verður annað húsið nr. 9 -11 og hitt 13 – 15.

Í húsi nr. 9 – 11 verða væntanlega 24 íbúðir og fylgir þá eitt bílastæði í bílageymslu með hverri íbúð.

Í húsi nr. 13 – 15 verða væntanlega 25 íbúðir og fylgir þá eitt bílastæði í bílageymslu með hverri íbúð.

Birt flatarmál húss nr. 1 til 3 og stakstæðra bílskúra er 2683,5 fermetrar

Birt flatarmál húss nr. 5 til 7 og stakstæðra bílskúra er 2595,5 fermetrar

Áætlað birt flatarmál húsanna nr. 9 til 15 verður ca 5400 fermetrar.

Áætlað birt flatamál allra húsanna er því 10.680 m2

Birt flatarmál getur breyst til hækkunar eða lækkunar þegar samþykktar teikningar liggja fyrir í húsum 9-11 og 13-15.

Húsin verða byggð samkvæmt ÍST 51, 4. Útgáfa 2001, Byggingarstig 7, - Fullgerð bygging.

Aðalhönnuður allra húsanna er Úti og inni ehf. Lagnir og burður Víðsjá ehf og rafmagn Lumex ehf.

Byggingaraðili er Dalhús ehf.

Húsin verða byggð samkvæmt teikningum frá Úti og inn ehf og hægt er að miða við samþykkta teikningu vegna Mosagötu 1-3 og 5 til 7 til þess að glöggva sig á húsagerð og frágangi í Mosagötu 9 til 15.

Húsin eru staðsteypt, einangruð að innan, með viðsnúnu þaki.

Ytri frágangur og lóð

Húsin afhendast fullbúin að utan, lóð fullbúin svo og bílastæði. Húsin verða steinuð að utan að mestu, en sléttir fletir filteraðir og málaðir.

Öll svalagólf eru lögð flísum eða sambærilegu efni.

Svalahandrið eru úr heitgalvanseruðu járni og klædd innbrenndu áli uppí 90 cm hæð.

Húsin verða fullglerjuð með K-gleri.

Gluggar eru frá Byko. Þeir, ásamt svalahurðum, opnanlegum fögum eru hvítmálaðir með álundirlista.

Aðalinngangshurðir á jarðhæð eru viðarflekahurðir með hliðargleri. Inngangshurðir í stigahús og íbúðir af svalagöngum eru timbur rammahurðir með gleri. Póstkassar eru á jarðhæð stigahúss með aðgangi utan frá og innan. Lóð er afhent fullbúin. Bílastæði malbikað. Hellulagðar stéttar eru framanvið anddyri hússins og meðfram bílastæði og við sorpgeymslur. Hitalögn er undir þeim stéttum að mestu. Upphituð gönguþrep verða milli bílskúra 3-5 frá bílaplani uppá göngustíg í bæjarlandi. Leiksvæði verður á lóðinni, þar verður skipt um jarðveg, en engin tæki fylgja. Trjágróður fylgir ekki.

Innri frágangur

Innréttingar og efnisval

Hurðir og sólbekkir

Hurðir frá göngum inn í íbúðir eru ECS 30 (B-30) plastlagðar eikarlíki, 90 cm. á breidd, 210 cm. á hæð Innihurðir eru frá Herholzt í Þýskalandi eða sambærilegar. Vandaðar, plastlagðar eikarlíki, 210 cm á hæð og breidd 80 cm. Sólbekkir eru þar sem við á, hvítir plastlagðir.

Þröskuldur, með loftöndun, er í hurðaropum úr baði og þvottahúsi.

Fataskápar

Fataskápar eru í forstofu og öllum svefnherbergjum.

Fataskápar eru frá Colombini Casa Italíu eða sambærilegir að hönnun og gerð. Hönnun og framleiðsla af góðum gæðum. Skáparnir eru spónlagðir með eikarspæni eða plastþekju. Allir fataskápar ná upp í loft og eru annað hvort með rennihurðum eða tvískiptum lamahurðum. Í skápunum eru hillur og skúffur eftir því sem við á.

Eldhús

Í eldhúsi eru innréttingar frá Colombini Casa Italíu eða sambærilegar. Í megindráttum má lesa fyrirkomulag innréttinga af teikningum arkitekts og nánar þegar teikningar frá framleiðendum innréttinga liggja fyrir. Í neðri hluta innréttinga eru skúffur í meirihluta móti hillum í skápum. Í efri skápum eru hillur. Á einstaka stað geta verið opnar, stakar hillur. Allar hurðir og skúffur með ljúflokun.

Hurðir á neðri skápum eru spónlagðar með eikarspæni eða plastfilmu, sem og sýnilegar hliðar skápa og framhliðar á skúffum. Hurðir efri skápa eru sprautulakkaðar hvítar. Í skápum eru hillur eftir því sem við á. Borðplötur eru plastlagðar. Í kæliskápaeiningu er gert ráð fyrir 60 cm breiðum kæliskáp, allt að 186cm háum. Gert er ráð fyrir uppþvottavél, þessi tæki fylgja þó ekki með. Keramik eldavél felld ofaná borðplötu og bökunarofn með blæstri og klukku fylgja hverri íbúð, Þessi tæki eru af AEG gerð eða sambærileg að gæðum og gerð. Háfur (ekki útsog) á vegg eða hengdur í loft fylgir, eftir því sem við á. Stálvaskur með borði er við hlið uppþvottavélarskáps og einnar handar blöndunartæki af viðurkenndri gerð. Einnig er tengikrani og affall fyrir uppþvottavél. Læsanlegur skápur fyrir lyf fylgir í innréttingu. Staðsetning tækja á teikningu getur breyst í sérstökum tilfellum. Í eldhúsi eru 2 ljós , en önnur ljós fylgja ekki.

Baðherbergi

Á baði er innbyggður Geberit vatnskassi eða sambærilegur, með hvítu salerni og hæglokandi setu. Handlaug úr hvítu postulíni er felld inn í neðriskápaeiningu og einnar handar blöndunartæki fylgja. Innréttingar eru úr spónlagðri eða plastlagðri eik með hæglokandi skúffum og/eða hurðum. Þar sem þvottavélar eru inná baðherbergi er gengið frá í það minnsta borðplötu ofan við vélar.

Sturtubaðkar 75 x 170 er standard búnaður, en sturtuklefi 90 x90 með bogadregnum hurðum (sturtuhlíf) í einstaka baðherbergi. Blöndunartæki eru hitastýrð og af viðurkenndri gerð. Spegill fylgir ekki. Veggir eru flísalagðir með ljósum flísum. Flísalagt upp í 230 cm. Dökkar gegnheilar flísar á gólfi. Ljósakúplar í lofti fylgja. Baðherbergi er loftræst með útsogi, ef ekki er gluggi.

Þvottahús

Þar sem þvottahús eru, afhendast þau með litlum stálvaski, innfelldum í plastlagða borðplötu eða stakstæðum vask á vegg með hlífðarplötu. Vaskurinn er með einnar handar blöndunartækjum. Gólf er flísalagt með dökkum gegnheilum flísum. Þvottahús er loftræst með útsogi, ef ekki er gluggi.

Eitt ljósastæði í lofti fylgir. Í sumum minni íbúðanna er ekki sér þvottahús, en reiknað með þvottavél í baðherbergi.

Gólfefni íbúða

Íbúðirnar eru afhentar án gólfefna nema hvað flísar eru á gólfi baðherbergis og þvottahúss.

Hljóðdeyfidúkur er undir flísum.

Gólfum er skilað tilbúnum undir gólfefni.

Veggir og loft

Lofthæð í íbúðum er ca. 2,65 metrar (innanmál án gólfefna). Innveggir eru hlaðnir úr léttsteypu af viðurkenndri gerð (Ytong). Útveggir einangraðir og múraðir á hefðbundinn hátt. Steyptir innveggir eru múraðir eða/og spartlaðir. Allir veggir eru sandspartlaðir og málaðir hvítir. Loft eru slípuð, sandspörtluð og úðuð, máluð hvít.

Sameign

Öll sameign er afhent fullbúin. Anddyri er flísalagt og fylgja póstkassar uppsettir. Dyrasími er í anddyri. Hjóla- og vagnageymslur skilast grófmúraðar, þar sem við á, og máluð gólf . Geymslugangar og inntaksrými skilast grófmúrað og málað með lökkuðum gólfum. Stigahús verður afhent teppalagt sem og gangar framan við íbúðir á jarðhæðum. Loft eru slípuð og máluð.

Sérgeymslur

Öllum íbúðum fylgja sérgeymslur á jarðhæðum. Þær afhendast grófmúraðar, málaðar og með lakkmáluðu gólfi. Loft slípuð og máluð. Léttir skilveggir í geymslum eru úr léttsteini. Hillur í geymslum fylgja ekki. Einn tengill er í geymslu og ljósastæði í lofti fylgir.

Bílageymsla

Í Mosagötu 9-13 er innangengt í bílageymslu úr stigagangi um brunastúku. Hver íbúð á 1 stæði í bílgeymslu. Bílageymslan er einangruð og upphituð með hitablásara. Vélræn loftræsting. Til hliðar við bílageymsluhurð er gönguhurð. Hurð á bílgeymslu er með sjálfvirkum hurðaropnara. Ein fjarstýring fylgir hverri íbúð. Veggir eru múraðir og málaðir. Gólf er vélslípað. Flúrlampar eru í loftum. Lagt er rafmagnsrör að hverju bílastæði frá rafmagnsmæli íbúðar, þannig að möguleiki er á tengingu til þess að hlaða rafmagnsbíl í stæðinu, ef slíkt verður leyft í bílageymslunni.

Í Mosagötu 1-3 og 5-7 eru 11 bílskúrar í lengju sem tilheyra hvoru 22ja íbúða húsi. Þeir eru tengdir rafmagni þeirrar íbúðar sem þeir koma til með að tilheyra. Auk rofa og tengla er ljós í lofti bílskúra og í skyggni utan við dyr þeirra. Það ljós tilheyrir sameign þar sem það er hluti lýsingar á plani. Bílskúrar eru með heitu og köldu vatni, skolvaski uppsettum og slöngutengi. Gólf er flotað með sterku floti. Útihurð er bílgeng flekahurð af viðurkenndri gerð og fylgja tvær fjarstýringar.

Rafmagn og boðleiðir

Útiljós er á svölum og við allar útihurðir. Vatnsvarinn tengill er á svölum. Tveir sjónvarps- og símatenglar fylgja í hverri íbúð, tengdir með koparvírum. Sjónvarpskerfi og símakerfi er tengt við ljósleiðara sem tengdur er inn í húsið og er í tengikassa í hverri íbúð. Dyrasími er í anddyri, eitt dyrasímtæki er í hverri íbúð. Tveir reykskynjarar og eitt handslökkvitæki fylgir hverri íbúð.